Glitnir og Íþróttasamband Fatlaðra undirrituðu nýlega samstarfssamning sem felur í sér áframhaldandi stuðning Menningarsjóðs Glitnis við starfsemi sambandsins og Special Olympics á Íslandi en bankinn hefur verið aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi frá árinu 2001.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Þar kemur fram að starfsemi Special Olympics á Íslandi hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og skemmst er að minnast vel heppnaðrar þátttöku í Alþjóðaleikunum í Shanghai í Kína í október á síðasta ári. Alls tóku þátt 32 keppendur frá Íslandi, á aldrinum 12-47 ára.

„Við erum mjög stolt af löngu og góðu samstarfi við Íþróttasamband Fatlaðra og Special Olympics á Íslandi” segir Lárus Welding, forstjóri Glitnis í tilkynningunni.

„Þetta góða samstarf sýndi sig vel á Alþjóðaleikunum í Kína á síðasta ári, þegar starfsmenn á skrifstofu okkar í Shanghai voru þátttakendum innan handar við skipulag ferðarinnar.”

Í tilkynningunni kemur fram að Special Olympics International eru samtök sem stofnuð voru af Kennedy fjölskyldunni árið 1968 og hafði Eunice Kennedy Schriver, systir John F. Kennedys, Bandaríkjaforseta, forystu í þeim efnum.

Fjölskylda Eunice Kennedy Schriver, þar á meðal Maria Schriver og eiginmaður hennar, Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri í Kalíforníu, hafa síðan gert samtökin að alþjóðlegri hreyfingu sem nú er talin ein áhrifaríkasta íþrótta- og mannúðarhreyfing í heimi.

„Þroskaheftir og seinfærir einstaklingar sem oft eru settir til hliðar í samfélögum þjóðanna, eru miðpunktur leika á vegum samtakanna. Umgjörð og skipulag er eins og um ólympíuleika sé að ræða en keppni er á jafnréttisgrundvelli og allir verða sigurvegarar,“ segir í tilkynningunni.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur setið í stjórn Special Olympics International síðan 2004.