*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 14. febrúar 2014 15:33

Glitnir gæti hafa orðið af milljörðum

Tryggingamiðstöðin þarf ekki að greiða Glitni bætur vegna stjórnenda bankans.

Jón Hákon Halldórsson
Lárus Welding er einn þeirra sem er dæmdur í málinu.
Aðrir ljósmyndarar

Glitnir banki gæti hafa orðið af milljörðum króna með dóm i Hæstaréttar sem kveðinn var upp i máli Jóns Sigurðssonar, Lárusar Welding og Þorsteins M. Jónssonar gegn Tryggingamiðstöðinni í gær.

Málið snerist um stjórnendatryggingu sem keypt var fyrir alla stjórnendur Glitnis og gilti frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Eins og greint var frá á VB.is í gær er í skilmálum tekið fram að tryggingin gildi um kröfur á hendur stjórnendum og yfirmönnum sem gerðar eru á vátryggingatímanum. En það er gerð undantekning á þeirri reglu í því ákvæði sem reyndi á í dómsmálinu. Samkvæmt þessu undantekningarákvæði fá þeir sem eru tryggðir sex ára viðbótartilkynningarfrest til að tilkynna kröfur í trygginguna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Fyrsta skilyrðið var að Glitnir, sem var vátryggingatakinn, mátti ekki hafa keypt nýja stjórnendatryggingu annarsstaðar. Fyrir liggur að Glitnir hafði keypt tryggingu annasstaðar. Þess vegna var ekki sex ára viðbótartilkynningafrestur. Kröfurnar sem þetta laut að komu fram eftir að vátryggingatímabilinu lauk. Þess vegna falla þau ekki undir þessa tryggingu. Þremenningarnir eiga ekki kröfu á Tryggingamiðstöðina

Það er til marks um mikilvægi dómsins að sjö hæstaréttardómarar skipuðu hann, en í flestum málum eru dómarar þrír eða fimm. Lögmenn sem VB.is hefur rætt við segja að það sé til marks um að Hæstiréttur hafi  séð að þarna voru miklir hagsmunir að baki. Ýmiss mál eru rekin á hendur fyrrverandi starfsmönnum bankans. Meðal annars rekur Glitnir bótamál vegna Aurum-sakamálsins, Stím -sakamálsins og fleira. Þeir lögmenn sem VB.is hefur talað við segja að Glitnir hafi uppi skaðabótakröfur á hendur fyrrverandi stjórnendum  bankans sem þeir vonast væntanlega til að geta fengið frá tryggingunum. Kröfur í málum Glitnis hlaupa á nokkrum milljörðum.