Glitnir hefur ákveðið að hækka vexti húsnæðislána í framhaldi af vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands um 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta sem kynnt var fyrr í dag, segir í fréttatilkynningu.

Bankinn hefur ákveðið að hækka óverðtryggða vexti sína um 0,60-0,75 prósentustig. Breytingin tekur gildi frá og með 22. maí.

Jafnframt hefur Glitnir ákveðið að hækka vexti á verðtryggðum lánum sínum um 0,30 prósentustig. Þar með munu vextir nýrra húsnæðislána til viðskiptamanna bankans hækka úr 4,60% í 4,90%.

Þessi breyting, sem tekur einnig gildi mánudaginn 22.maí, hefur hins vegar engin áhrif á kjör þeirra fjölmörgu sem tekið hafa húsnæðislán Glitnis til þessa.

?Viðbrögð okkar eru í takt við vaxtahækkun Seðlabankans og hækkandi ávöxtunarkröfu á verðtryggða enda markaðarins," segir Haukur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Glitnis.