Sjálfbærniverðlaun ársins voru afhent við hátíðlega athöfn í Lundúnum á þriðjudagskvöld og lenti Glitnir í öðru sæti í flokknum „Sjálfbæri samningur” ársins (e. Sustainable Deal of the Year).

Glitnir var í hópi fyrirtækja á borð við Merrill Lynch, Citi US og Morgan Stanley. Meðal ræðumanna við verðlaunaathöfnina voru Boris Johnson, nýr borgarstjóri Lundúnaborgar og Marcus Agius, stjórnarformaður Barclays.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Samningurinn sem um ræðir tengist þátttöku bankans í verkefni á sviði rannsókna og uppbyggingar á jarðvarmasvæðinu Salton Sea í Kaliforníu, samkvæmt tilkynningunni.

Alexander Richter, sem leiðir rannsóknar- og kynningarstarf Glitnis á sviði orkumála, Helgi Anton Eiríksson, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs og Jonathan Byrne hjá Glitni í London voru viðstaddir athöfnina, en John Ridding, forstjóri Financial Times, afhenti viðurkenninguna.

Þá kemur fram að Alexander er mjög ánægður með þennan árangur og segir þetta mikla hvatningu fyrir orkuteymi Glitnis.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkar störf enda var samkeppnin afar hörð þar sem Glitnir atti kappi við aðila á borð við Citi US, Merrill Lynch,  BlueOrchard Finance og Morgan Stanley en þau tvö síðastnefndu fóru saman með sigur af hólmi í þessum flokki,“ segir Alexander í tilkynningunni.

Samningurinn sem Glitnir var tilnefndur fyrir er lánsamningur að upphæð 15 milljóna dollara til uppbyggingar og rannsókna í umræddu jarðhitaverkefni.

Alexander segir Glitni hafa verið  fyrsta fjármálafyrirtækið til þess bjóða fyrirtækjum aðkomu að jarðhitaverkefnum með slíkum hætti í Bandaríkjunum og nefnir að Glitnir veitti sambærilegt lán til fyrirtækisins Nevada Geothermal á síðasta ári.

„Bandaríkjamarkaður er mjög áhugaverður fyrir okkur og framundan er töluverð  þróun á sviði orkumála þar í landi. Menn leita nýrra lausna og það er ljóst að virkjun jarðhita er ein þeirra. Glitnir er með sterka stöðu á þessu sviði í Bandaríkjunum og útlitið er mjög gott á þessum markaði”, segir Alexander.