Slitastjórn Glitnis hf. og PricewaterhouseCoopers staðfestu í dag að samkomulag hefur náðst um að fella niður allar kröfur og gagnkröfur milli Glitnis og PwC í málum sem rekin voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í samkomulaginu felst engin viðurkenning sakar, að því er fram kemur í sameiginlegri tilkynningu. Slitastjórn Glitnis hafði stefnt PwC fyrir vanrækslu í endurskoðunarstörfum fyrir Glitni.

„Það er mat okkar að sú niðurstaða sem sáttin færir Glitni sé viðunandi eftir atvikum og því féllumst við á að leysa málin á þeim grundvelli” segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis af þessu tilefni.

„Sátt í þessum ágreiningsmálum er eina skynsamlega niðurstaðan. Þar með verður komið í veg fyrir ófyrirsjáanlegan kostnað af áframhaldandi málarekstri og sóun á tíma stjórnenda. PwC getur því einbeitt sér að starfsemi sinni og því að veita viðskiptavinum sínum áfram góða þjónustu.”, segir Friðgeir Sigurðsson, framkvæmdastjóri PwC.