Glitnir var fenginn til að veita American Seafoods Group (ASG) í Seattle ráðgjöf við yfirtöku fyrirtækisins á ufsavinnslu Yardarm Knot, Inc. en bæði fyrirtækin stunda veiðar í Beringshafi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Glitni.

Þar kemur fram að sjávarútvegsteymi Glitnis í New York sá alfarið um fjármálalega ráðgjöf til American Seafood í þessum viðskiptum ásamt því að koma að fjármögnun verkefnisins.

Þá kemur fram að á undanförnum misserum hefur Glitnir komið að „flestum stærri alþjóðlegum ráðgjafaverkefnum í sjávarútvegi,“ eins og það er orðað í tilkynningu bankans, „samanber kaupum Paine and Partners á Icicle í lok síðasta árs,  afskráningu Clearwater Seafoods í síðustu viku og núna kaupum American Seafood á Yardarm útgerðafyrirtækinu.“

American Seafoods veltir u.þ.b 50 milljörðum króna og er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi.  Kaupin efla American Seafoods í veiðum á Alaska ufsa,  þar sem félagið bætir við sig rúmlega 2% af heildar veiðiheimildum í Alaska.

„Við erum ákaflega ánægð með að hafa komið að þessum viðskiptum sem ráðgjafar American Seafood Group, en samningurinn mun auka mjög hagræði í sjávarútvegi í Alaska,“ segir Magnús Bjarnason framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis í tilkynningunni.

„Glitnir hefur skilgreint sjávarafurðaiðnaðinn sem eina af megin viðskiptastoðum bankans og þar hefur  sérfræðiþekking okkar haldið áfram að gegna lykilhlutverki. Þessi samningur sýnir að  Glitnir heldur því áfram að vera leiðandi afl innan sjávarútvegsgeirans“ segir Magnús.

Í tilkynningunni kemur fram að viðskiptasamband Glitnis og American Seafood hefur varað í langan tíma.

Bernt Bodal, forstjóri og stærsti hluthafi í Amercans Seafoods segir að Glitnir hafi „enn og aftur gengt lykilhlutverki sem fjármögnunaraðili og ráðgjafi í mikilvægum viðskiptum fyrirtækisins,” segir í tilkynningunni.