Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM), tilkynnti í dag áform um að loka nokkrum af verksmiðjum sínum tímabundið á næstu tveimur mánuðum. Ástæðan er minnkandi eftirspurn eftir nýjum bílum.

Með þessu dregur verulega úr framleiðslu GM á bílum en fyrirtækið er stærsti bílaframleiðandi i heimi. GM biðlar nú, ásamt Ford og Chrysler, til bandarískra stjórnvalda um aðstoð svo félögin geti lifað af þá miklu efnahagslægð sem nú gengur yfir.

Reuters fréttaveitan hefur það eftir talsmanni GM að fyrirtækið muni loka verksmiðjum sínum í Janúar í Lordstown, Ohio, Michigan og Farifax, Kansas.

Starfsmenn GM í þessum verksmiðjum eru samtals 16.000. Starfsmennirnir munu þó aðeins missa vinnu sína tímabundið, svo unnt sé að draga úr framleiðslu.

Eftirspurn eftir bifreiðum í Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur ekki verið jafn lítil í 25 ár.