Bílaframleiðandinn bandaríski, General Motors, hefur fallið frá því að kaupa fólksbílaframleiðslu Fiat eins og til stóð. GM og Fiat hafa átt í harðvítugum deilum undanfarna mánuði um útfærslu samstarfs þeirra sem nú hefur verið fallið frá. Rick Wagoner, stjórnarformaður og forstjóri GM, segir að það þjóni hagsmunum beggja fyrirtækja að uppræta bandalag þeirra.

Samkomulag varð um að GM borgi Fiat 1,99 milljarða dollara, um ríflega 120 milljarða króna, fyrir að slíta samstarfinu og hætta við að kaupa ítölsku verksmiðjuna. Jafnframt skilar GM þeim 10% hlutafjár sem félagið hafði fengið í Fiat Auto en hefði Fiat neytt fyllsta réttar síns samkvæmt samstarfssamkomulaginu og neytt GM til að yfirtaka ítalska fyrirtækið hefði yfirtökunni fylgt skuldir sem áætlaðar eru upp á átta milljarða evra, um 640 milljarða króna. GM verðlagði 10% hlutdeild sína í Fiat Auto á 220 milljónir dollara í fyrra en þar var um miklar afskriftir að ræða því árið 2000 var hluturinn metinn á 2,4 milljarða dollara.