Bílaframleiðandinn General Motors tilkynnti í gær um að innkalla þurfi rúmlega 40 þúsund bíla af tegundunum Chevrolet, Pontiac og Saturn. Talið er að olíuslanga geti lekið og þannig orðið til þess að eldur kviknar í vél bílsins.

Um er að ræða bíla framleidda á árunum 2007 til 2009 af gerðunum Chevrolet Cobalt, Chevrolet Equinox, Pontiac G5, Pontiac Torrent og Saturn Ion.

Þetta er í þriðja sinn á aðeins fáum mánuðum sem GM neyðist til þess að innkalla bifreiðar, að því er CNN greinir frá.