Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) mun segja upp allt að 10 þúsund manns á þessu ári en hjá félaginu starfa nú um 73 þúsund manns á heimsvísu.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters en talið er að um 3.400 manns verði sagt upp í Bandaríkjunum en restinni víðsvegar um heiminn.

Um helgina var greint frá því að félagið myndi segja upp allt að 5 þúsund manns, þá flestum í Bandaríkjunum en félagið ætlar greinilega að brýna hnífinn því í dag var tilkynnt sem fyrr segir að 10 þúsund manns yrði sagt upp.

Bloomberg fréttaveitan greindi frá því um helgina að félagið, sem fékk rúmlega 13 milljarða dala neyðarlán frá bandarískum yfirvöldum rétt eftir áramót, þyrfti að sýna fram á að rekstur þess geti gengið áfram en það eru skilyrði fyrir láninu.

Lánveitingin fer þannig fram að hluti lánsins var afhentur í byrjun janúar (tæpa 9 milljarða dali) en restin (rúml. 4 milljarðar) verður afhent í apríl þegar félagið er búið að leggja fram „raunhæfa rekstraráætlun“ eins og Bloomberg orðaði það, sem sýnir fram á að rekstur félagsins geti gengið áfram.

Ef félagið getur ekki sýnt fram á raunhæfa rekstraráætlun fær það í fyrsta lagi ekki restina af láninu og endurgreiðslutíminn verður styttur á því sem búið er að afhenta.