Góð þátttaka var í hlutafjárútboði Marel Food Systems til fagfjárfesta en því lauk í dag.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að tilboð bárust um kaup á alls 26.567.963 hlutum. Stjórn félagsins ákvað að taka öllum tilboðum, sem voru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum, á verðinu 54 krónur á hlut. Heildarsöluandvirði útboðsins var rúmir 1,4 milljarðar króna sem svarar til 8,3 milljóna evra.

Stjórn Marel hefur í kjölfarið samþykkt að auka hlutafé félagsins um 26.567.963 hluti. Hlutafjárhækkunin nemur 4,6%  og er heildarhlutafé Marel 606.868.275 hlutir eftir útboðið.

Fram kemur að Nýi Kaupþing banki hafði umsjón með útboðinu fyrir hönd Marel en tilgangur útboðsins var að styrkja frekar lausafjárstöðu félagsins, ásamt því að auka sveigjanleika og minnka rekstraráhættu.

„Við erum þakklát því trausti sem fjárfestar og bankar hafa sýnt félaginu með þátttöku sinni í þessu útboði, nýlegu skuldabréfaútboði og endurfjármögnun langtímaskulda félagsins,“ segir Theo Hoen, forstjóri Marel Food Systems í tilkynningunni.

„Á undanförnum vikum höfum við styrkt efnahag félagsins og tryggt stöðuleika í fjármögnun og horfum nú fram á veginn til þeirra tækifæra sem framundan eru.“

Gjalddagi hinna nýju hluta er fimmtudaginn 11. júní næstkomandi. Marel mun óska eftir því að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta hjá Kauphöllinni eigi síðar en mánudaginn 15. júní næstkomandi.