Raunávöxtun Lífeyrissjóðsins Framsýnar fyrstu sex mánuði ársins 2004 nam 18,4% á ársgrundvelli og hefur hrein eign sjóðsins hækkað um tæplega 7,8 milljarða króna frá áramótum. Góða ávöxtun má rekja til góðrar ávöxtunar á hlutabréfamörkuðum en einnig hefur náðst árangur við að stýra gengisáhættu í tengslum við erlendar eignir sjóðsins.

Í tilkynningu frá sjóðnum kemur fram að rekstrarkostnaður sjóðsins lækkaði milli ára, var 0,08% af eignum fyrri hluta síðasta árs en 0,06% fyrstu sex mánuði þessa árs og er það með því lægsta sem þekkist hjá íslenskum lífeyrissjóðum.

Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins námu tæplega 1,6 milljörðum króna á tímabilinu, sem er aukning upp á 14,1% miðað við sama tíma í fyrra. Lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 6,7% miðað við fyrri ársins 2003, námu 1,1 milljarði króna, og er lífeyrisbyrði sjóðsins 70,2% (þ.e. lífeyrigreiðslur sem hlutfall af iðgjaldagreiðslum). Hrein eign til greiðslu lífeyris nam alls tæpum 71,3 milljörðum í lok tímabilsins og fjöldi lífeyrisþega var rúmlega 9.000.

Ávöxtun séreignarsjóðs nam 17,2% á fyrri hluta þessa árs og hefur hrein eign sjóðsins aukist um 209 milljónir króna frá áramótum. Rétthöfum fjölgaði um 3.100 á fyrstu 6 mánuðum ársins og voru þeir alls um 29.500 í lok tímabilsins. Iðgjaldagreiðslur voru um 134 milljónir króna og lífeyrisgreiðslur um 2,5 milljónir á tímabilinu.