Þrátt fyrir fremur lélega jólasölu í Bretlandi gekk salan hjá Debenhams- keðjunni býsna vel en heildarsalan jókst um 4,4% og um 2,2% mælt á sambærilegan hátt við söluna fyrir jólin 2006.

Baugur Group er stærsti einstaki hluthafinn í Debenhams með 13% eignarhlut í verslanakeðjunni. Í frétt Dow Jones kemur einnig fram að sala Debenhams á netinu hafi aukist um 85% og að netviðskiptavinum hafi fjölgað um 57% milli tímabila.

Forstjóri Debenhams, Rob Templeman, var þó fremur varfærinn þegar hann tjáði sig um horfurnar á þessu ári og sagði að væntingar neytenda í Bretlandi hefðu daprast og að stjórnendur Debenhams gengju út frá því að markaðsaðstæður yrðu áfram erfiðar.

Gengi bréfa Debenhams hefur fallið mikið vegna áhyggna af vaxtarmöguleikum keðjunnar og hækkandi vaxta og fjármagnskostnaðar. Debenhams var skráð á markað vorið 2006 og var útboðsgengið 195 pens á hlut en hefur fallið mikið síðan.

Það vakti hins vegar athygli að gengi Debenhams tók mikið stökk á föstudaginn, áður en tölur um jólasöluna voru birtar í gær, og nam dagshækkunin 9% og á mánudaginn hækkaði gengið um 13%. Viðskiptin voru einnig mikil en um 25 milljónir hluta skiptu um hendur sem er tvöfalt meira en meðaltalsviðskipti á dag síðustu þrjá mánuðina og því taldar líkur á að fréttirnar hafi lekið út. Í frétt Dow Jones er beinlínis hvatt til þess að fjármálaeftirlitið breska skoði málið.