Hagnaður Össurar á síðasta ári nam rúmlega 35 milljónum dala, jafnvirði um 4,1 milljarði króna. Aukin sala skýrir helst aukinn hagnað. Á símafundi félagsins í dag, þar sem uppgjörið var kynnt fjárfestum og öðrum, kom fram að sala í Bandaríkjunum og Asíu hafi gengið afar vel. Sala í Evrópu hafi hinsvegar gengið verr á fjórða ársfjórðungi 2010.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði tvær meginástæður vera fyrir minni sölu þar. Annarsvegar hafi teki lengri tíma en búist var við að aðlaga vörur sem heppnuðust vel á Bandaríkjamarkaði að Evrópumarkaði. Hinsvegar seinkaði afhendingu vara sem hafi komið niður á vexti.

Jón sagði að hann hafi ekki áhyggjur af vexti félagsins í Evrópu og að markaðssvæðið hafi hingað til verið stöðugt og öruggt fyrir Össur. Að hans mati sé síðasti ársfjórðungur undantekning frá annars stöðugu markaðssvæði.

Söluvöxtur Össurar á síðasta ári var 9% mældur í staðbundinni mynt.

Ákvörðun um afskráningu í mars

Á símafundinum í dag kom til tals afskráning félagsins úr Kauphöll Íslands en félagið er í dag tvískráð, hérlendis og í Kaupmannahöfn. Kom fram að rætt verður um afskráningu félagins, sem samþykkt hefur verið af meirihluta stjórnar, á hluthafafundi þann 4. mars næstkomandi.

Að öðru leyti sagði Jón að afskráning félagsins væri fyrir hluthafa og stjórn að ræða sín á milli, ekki stjórnendateymi félagsins.