Stjarnan ehf., rekstrarfélag Subway á Íslandi, hagnaðist um 120,2 milljónir króna í fyrra samanborið við 124,3 milljónir króna árið áður.

Stjarnan er í eigu Leitis eignarhaldsfélags, sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar athafnamanns.

Rekstrartekjur félagsins námu um 1.550 milljónum króna á árinu og hækkuðu um tæpar 80 milljónir króna á milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins nam um 185,9 milljónum króna samanborið við 191,4 milljónir króna árið áður. Eigið fé félagsins var um 428 milljónir króna í lok síðasta árs. Skuldir félagsins námu í árslok um 322 milljónum króna, en þær eru að mestu leyti við tengd félög.

Sólstjarnan ehf., systurfélag Stjörnunnar, sem jafnframt er í eigu Skúla Gunnars, tapaði hins vegar 34,9 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 17,6 milljóna króna hagnað árið áður. Sólstjarnan er innflutnings- og dreifingarfyrirtæki fyrir Subway og fleiri aðila. Eigið fé félagsins var um 111,8 milljónir króna í árslok síðasta árs og á sama tíma skuldaði félagið 83,7 milljónir króna.

Þriðja systurfélagið, fasteignafélagið Sjöstjarnan ehf, hagnaðist um 41,4 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 12,7 milljónir króna árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins nam 89,7 milljónum króna samanborið við 39,5 milljónir króna árið áður. Eigið fé félagsins var í árslok síðasta árs um 123 milljónir króna en var neikvætt um 165,5 milljónir króna árið áður.