*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 22. maí 2014 11:59

Gogoyoko verður ATMO og breytir um stefnu

Gogoyoko mun eftirleiðis sérhæfa sig í tónlistarlausnum fyrir fyrirtæki.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Tónlistarveitan Gogoyoko hefur breytt um nafn og mun eftirleiðis heita ATMO. Fyrirtækið mun sömuleiðis sérhæfa sig í tónlistarlausnum fyrir fyrirtæki. Haukur Magnússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Gogoyoko segir í tilkynningu að með tónlistarlausn ATMO sé mætt þörfum fyrirtækja. ATMO þjónustar yfir 120 staði á Íslandi og hyggst fyrirtækið færa út kvíarnar og undirbýr opnun skrifstofa í Noregi, Hollandi og Þýskalandi.

„Ávinningur fyrirtækjanna er fólgin í því að tónlistarsérfræðingar sjá um tónlistarstefnuna og lagalistar eru uppfærðir reglulega, ásamt því að hægt er að bæta inn skilaboðum og auglýsingum, með það að markmiði að tónlist og skilaboð styðji við rekstur fyrirtækisins. Það er staðreynd að fyrirtæki geta aukið tekjur sínar með réttu andrúmslofti,“ segir Haukur. 

Gogoyoko var stofnað árið 2007 og þróaði hugbúnaðarkerfi til að selja og streyma tónlist á netinu til notenda undir merkjum „Fair Play“ eða ábyrgrar tónlistarnotkunar. Undanfarin tvö ár hefur fyrirtækið boðið upp á fyrirtækjaþjónustu á sviði tónlistarlausna og skjástýringa. Í kjölfar stefnumótunarvinnu hefur stjórn fyrirtækisins ákveðið að einbeita sér að því að þjónusta fyrirtæki undir nýju merki, ATMO. Þjónusta fyrirtækisins byggir á streymislausn á tónlist sem upprunalega var þróuð fyrir notendur á netinu. ATMO mun sérhæfa sig í að styðja við ímynd og starfssemi fyrirtækja m.a. með því að hanna sérsniðnar tónlistarlausnir og skjástýringar.

Stikkorð: Gogoyoko Haukur Magnússon ATMO