Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs geymir meira en milljón tonn af áli í vöruskemmum í Deitroit í Bandaríkjunum. Bankinn þiggur tugi milljóna dala fyrir vörsluna á ári hverju.

Reuters fjallar um starfsemi Goldmans á álmarkaði í dag og segir vandamálið aðeins eitt. Álið fer mun hægar út úr geymslunum en kemur inn í þær. Framboðið er því mun minna á markaði sem hefur skapað vandamál fyrir framleiðendur sem notast við ál, líkt og gosdrykkjaframleiðendur og flugvélaiðnað.

Sérfræðingar sem Reuters ræddi við efast um hvort rétt sé að fjármálafyrirtæki líkt og Goldman geymi ál þar sem þeir stunda einnig viðskipti með hrávöruna á markaði. Goldman ítrekar þó að engin lög séu brotin.

Robin Bhar, sérfræðingur hjá Credit Agricole í London, telur að hagsmunir Goldmans beggja vegna borðsins stangist á og brjóti mögulega gegn samkeppnislögum.

Þrátt fyrir sterka stöðu fjárfestingabankann og „vöruskemmustefnu“ virðist það ekki hafa gagnast að neinu marki. Tekjur bankans af hrávöruviðskiptum hafa fallið mikið frá því fyrir ári. Það er í sjötta sinn á síðustu tíu ársfjórðungum sem bankanum tekst ekki að vaxa í deild hrávöruviðskipta.