Eftir ríflega hálfs árs undirbúning má samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gera ráð fyrir að kaup bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs og rithöfundarins Ólafs Jóhanns, aðstoðarforstjóra Time Warner, í Geysir Green Energy gangi eftir á næstu tveimur vikum.

Fyrirhugað er að þessir fjárfestar kaupi um 8,5% hlut í félaginu og kaupa þeir hvor í sínu lagi og verður hlutur Ólafs Jóhanns undir helmingi þess hlutar.

Fyrir hálfu ári bárust kviksögur um að Goldman Sachs og Ólafur Jóhann hygðu á slík kaup en síðan fór málið í biðstöðu og óljóst var hvort af kaupunum yrði. Var m.a. beðið eftir niðurstöðu í REI-málinu, breytingum á eignarhaldi sem urðu loks í liðnum mánuði þegar Glitnir og Atorka keyptu hlut FL Group, ásamt fleiri málum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .