Samlagsfélag golfkennara á rétt á lokunarstyrk vegna sóttvarnaaðgerða. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar (YSKN) sem sneri með því niðurstöðu Skattsins.

Aðdraganda lagasetningar um lokunarstyrki þarf ekki að reifa í löngu máli. Umrætt félag fékk greiddan styrk vegna fyrstu bylgju farsóttarinnar og sóttist eftir honum á ný í kjölfar annarar bylgju. Skatturinn hafnaði hins vegar beiðninni þar sem golf væri einstaklingsíþrótt sem hægt væri að stunda án snertingar þjálfara eða annarra iðkenda.

Í málinu lá fyrir umsögn heilbrigðisráðuneytisins um kæruna en samkvæmt henni var það mat ráðuneytisins að félaginu hefði verið skylt að láta af kennslu á meðan sóttvarnaaðgerðir stóðu sem hæst. Þá lagði félagið enn fremur fram svör frá sóttvarnalækni og yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra, Þórólfi Guðnasyni og Víði Reynissyni, um að golfkennsla í hermum innandyra félli undir reglugerðir þær sem í gildi voru. Aðeins afreksíþróttafólk hefði getað fengið undanþágu.

Þá stóð í Skattinum að skráður tilgangur umrædds samlagsfélags hefði verið lögfræðiþjónusta. Hins vegar lá fyrir í málinu að umrætt félag hafði ekki selt lögfræðiþjónustu í lengri tíma heldur aðeins sinnt golfkennslu.

„Í umsögn ríkisskattstjóra í málinu virðist raunar fallist á að almenn golfkennsla innandyra hafi verið óheimil á gildistíma reglugerðanna. Hins vegar er í umsögninni dregið í efa að starfsemi kæranda hafi eingöngu verið fólgin í golfkennslu innandyra og í því sambandi m.a. vísað til „framtalsgagna“. Ekki er þessi afstaða rökstudd frekar í umsögninni og er með öllu óljóst hvað ríkisskattstjóri hefur hér í huga. Þá er ástæða til að taka fram að hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra í málinu ber ekkert annað með sér en að ríkisskattstjóri hafi fallist á þá lýsingu á starfseminni sem fram kom af hálfu kæranda við meðferð málsins hjá embættinu,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Af þeim sökum tók YSKN kröfu félagsins til greina og sendi málið aftur í hausinn á Skattinum til meðferðar og afgreiðslu. Í öðru máli var greiðslu lokunarstyrks aftur á móti hafnað þar sem umrætt félag hafði verið í vanskilum með opinber gjöld. Sú staðreynd að félagið hafði gert samning um greiðslu þeirra gat ekki breytt þeirri niðurstöðu og enn fremur gagnaðist félaginu ekki að tefla fram jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

„Af hálfu kæranda hefur verið vísað til þess að hann hafi samið um greiðslu þeirra gjalda sem í vanskilum séu og að sá samningur sé ekki í vanskilum. Ganga verður út frá því að sá samningur, sem kærandi vísar hér til, sé greiðsluáætlun sem gerð hafi verið við innheimtumann ríkissjóðs á grundvelli [laga] um innheimtu opinbera skatta og gjalda. Slík greiðsluáætlun felur í sér viðurkenningu gjaldanda á kröfu og rýfur fyrningu hennar, en frestar innheimtuaðgerðum vegna gjalda sem undir hana falla nema hætta sé á að hagsmunir ríkissjóðs fari annars forgörðum […]. [Greiðsluáætlunin hefur] hvorki áhrif á ákvörðun dráttarvaxta vegna gjalda sem undir hana falla né skuldajöfnun inneigna sem myndast í skattkerfinu,“ segir í úrskurði nefndarinnar.