Netleitarrisinn Google áformar að hleypa tónlistar- og afþreyingarveitu af stokkunum sem gerir netverjum kleift að streyma tónlist. Henni er ætlað að keppa við Spotify og aðrar veitur. Bandaríska dagblaðið The New York Times segir líkur á að Google liðar opinberi áætlanir þessa á árlegri ráðstefnu hugbúnaðarfólks sem hefst í dag.

Í blaðinu er bent á að Google hafi unnið að þróun afþreyingahugbúnaðar um nokkurt skeið fyrir síma og annan tækjabúnað sem keyri á Android-stýrikerfinu og hafi fyrirtækið þegar samið við stór útgáfufyrirtæki. Blaðið segir streymi á tónlist á stafrænu formi hafa aukist mikið upp á síðkastið og hagnaðarvonin mikil.