Tæknirisinn Google hefur tilkynnt um veigamiklar breytingar á skipulagi fyrirtækisins, en þannig verður starfsemi þess brotin niður í smærri einingar sem allar verða reknar undir móðurfélaginu Alphabet.  Larry Page, annar stofnenda Google, kynnti þessi áform á bloggsíðu Google í gærkvöldi.

Page segir að Alphabet muni verða eins konar samansafn fyrirtækja. Stærsta fyrirtækið sem muni heyra undir móðurfélagið sé Google. Þá munu Youtube, Android, Chrome og fleiri einingar tilheyra hinu nýja fyrirtæki.

Alphabet verður stýrt af helstu núverandi stjórnendum Google. Þar á meðal eru Larry Page, Sergey Brin og fjármálastjórinn Ruth Porat.

Page tilkynnti um áformin eftir lokun markaða í gærkvöldi og hækkaði gengi hlutabréfa í fyrirtækinu um 6,2% eftir tilkynninguna. Gengi bréfanna hefur hækkað um meira en 20% það sem af er þessu ári.