Google hefur verið lögsótt í Bandaríkjunum af einkaaðila sem heldur því fram að galli í auglýsingaforriti fyrirtækisins leiði til þess að viðskiptavinir séu rukkaðir án þeirra vitneskju.

Fyrirtækið þénaði 5,19 milljarða Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi 2008, en þar af kom meirihluti frá AdWords og AdSense auglýsingaforritunum. Stefnendur halda því fram að þegar menn kaupa auglýsingar gegn um forritin teljist þeir hafa keypt þær ef þeir skilja reit um kaup á auglýsingum á heimasíðum þriðja aðila. Til að kaupa ekki slíkar auglýsingar verði að skrifa núll í reitinn.

Kaupendur auglýsinga festa kaup í tilteknum leitarorðum og auglýsing þeirra birtist þá þegar það orð er skrifað í leit á Google.

Lögmaður stefnanda í málinu segir í frétt Guardian um málið að þetta komi verst niður á litlum fyrirtækjum. Stærri auglýsendur viti hvernig þeir eigi að nota kerfið, en þeir minni viti ekki að þeir verði að skrifa núll í reitinn og hafi ekki efni á að borga þetta aukagjald. Talsmaður Google neitaði að tjá sig um málið.