*

föstudagur, 10. júlí 2020
Erlent 15. janúar 2020 07:07

Google sækist í sjúkraskrár

Leitarvélafyrirtækið segist vilja hjálpa, ekki selja sjúklingum auglýsingar. Leitast eftir að hýsa sjúkragögn.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Google leitarvélafyrirtækið hefur lagt töluvert á sig til að hýsa ýmis konar sjúkragögn fjölmargra fyrirtækja og stofnana í Bandaríkjunum og hefur það heimild til að deila gögnunum með þriðju aðilunum í mörgum tilvikum. Yfirmaður heilsudeildar fyrirtækisins, Google Health, Dr. David Feinberg segir markmið fyrirtækisins vera að hjálpa til frekar heldur en ná auknum hagnaði.

„Ég kom hingað til að gera fólk heilbrigðara, ég er ekki hérna til að selja þeim auglýsingar,“ er haft eftir honum í WSJ um málið. „Google er gott í að hjálpa. Við viljum vera hjálpsöm með þekkingu, árangur, heilbrigði og hamingju.“

Töluverðar áhyggjur hafa risið í Bandaríkjunum af því að Google hefur sýnt þessum gagnasöfnum aukinn áhuga en bandarísk lög sem samþykkt voru um slík gagnasöfn í tíð Bill Clinton virðast mjög opin fyrir því að þriðju aðilar geti fengið aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum.

Markmið Google hefur löngum verið að skipuleggja sem mestar upplýsingar, en móðurfélagið Alphabet er jafnframt með deild sem stefnir að því að lengja líf, greina sjúkdóma fyrr, til að mynda með búnaði sem fólk gengur með og jafnvel senda lyf til fólks með drónum.

Árið 2011 hætti félagið með heilbrigðisvettvang þar sem fólk gat greint sjálft frá eigin upplýsingum, en nokkru síðar fór það að byggja svipaðan grunn, undir nafninu Guardian, sem ekki virðist þó gefa sjúklingum neinn valkost.

Sögðust leita að nýjum tekjuleiðum

Heilbrigðiskeðjan Ascension, í St. Louis er einna fyrst til að nota nýja kerfið, en gögn þeirra eru mikið til ósamrýmanleg milli ríkja í landinu, sem hindrar möguleika til að staðla umönnun og meðferð. Í gögnum sem birt voru á kynningarfundi um verkefnið í maí kemur fram að markmiðið sé að geta sér til um hvaða meðferð fólk muni þurfa og koma auga á ónýttar tekjuleiðir.

Eftir að WSJ fór að spyrjast fyrir um kerfið þrengdi félagið aðgang að gögnum um það, og hafa alríkisyfirvöld í landinu einnig farið að skoða verkefnið. Hjá Google Healt starfa um þúsund starfsmenn, en yfirmaður þeirra, Feinberg, segist vilja að félagið sé gagnsærra í starfsemi sinni.

Segist hann vilja gefa starfsmönnum kost á því að vera í kerfinu eða ekki.

„Fólk er ekki að trúa því að við séum að gera það sem við segjumst vera að gera. Ég held að það sé okkur sjálfum að kenna,“ segir Dr. Feinberg. „Það hafa verið gerð mistök, ekki satt? Við verðum að viðurkenna það. Þess vegna verðum við að gera betur.“

Stikkorð: Google Alphabet David Feinberg