Google hefur búið til nýjan mælikvarða á verðbólgu, svokallaða vísitölu Google-verðs (e. the Google Price Index).

Vísitalan byggir á kostnaði selda vara á netinu. Tæknifyrirtækið telur að slík vísitala gefi nákvæmari mynd en hinar hefðbundnu mælingar. Google býr yfir ógrynni gagna um kostnað varnings á internetinu.

Aðalhagfræðingur Google, Hal Varian, segir í samtali við the Guardian að markmiðið sé að geta spáð fyrir um nútíðina (e. predicting the present) með því að notast við leitargögn Google.

Algengt er að efnahagsstærðir, til dæmis atvinnuleysi, birtist ekki fyrr en nokkrum vikum eftir að tímabili lýkur. Þannig væri hægt að nota Google til að spá fyrir um atvinnuleysi án tafa. Hægt væri að leita að því hversu margir sækja um atvinnuleysisbætur og þannig álykta hversu margir eru án atvinnu.

Munur á Vísitölu Google og hins opinbera

Varian sagði frá neysluvísitölu Google á ráðstefnu hagfræðinga í Denver í Bandaríkjunum. Hann sagði að hugmyndin væri ný af nálinni og óvíst væri hvort fyrirtækið myndi gera vísitöluna opinbera.

Þá sagði hann að mælingar vísitölunnar af seldum vörum á internetinu sýni augljósa verðhjöðnun í Bandaríkjunum frá því í desember. Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum mælir hinsvegar 0,9% verðbólgu.

Varian ítrekaði að vísitölurnar eru ekki fullkomlega sambærilegar. Húsnæðisliðurinn í Google-vísitölunni er 18% af heild en er 40% í hinni hefðbundnu vísitölu neysluverðs.