George Osborne, skuggaráðherra fjármála í Bretlandi gagnrýnir Gordon Brown, fjármálaráðherra harðlega í breskum fjölmiðlum í dag.

Þar með hefur Osborne í raun yfirgefið það þverpólitíska samstarf sem hafði myndast milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins í Bretlandi síðustu daga í lausn á fjármálakrísunni.

Osborne er skuggaráðherra Íhaldsflokksins.

Í grein sem Osborne skrifaði í Evening Standard segir hann Brown vera ábyrgan fyrir „stærstu efnahagshörmungum aldarinnar,“ eins og það er orðað í grein Osborne.

Osborne segir breska skattgreiðendur tapa stórlega á björgunaraðgerðum yfirvalda og mótmælir því harðlega að talað sé um þær sem „sigur“ þegar í raun muni aðgerðirnar koma í bakið á skattgreiðendum von bráðar.

Osborne segir björgunaraðgerðir yfirvalda þó nauðsynlegar þar sem ekkert annað hafi verið í stöðunni úr því sem komið var. Hann kennir hins vegar ríkisstjórninni fyrir að hafa ekki brugðist fyrr við þannig að koma hefði mátt í veg fyrir aðgerðirnar.

Grein Osborne hefur vakið athygli breskra fjölmiðla í dag þar sem Íhaldsflokkurinn hefur unnið náið með ríkisstjórn Brown síðustu vikur í að reyna að leysa krísuna.

Aðspurður segir Osborne að áfram verði unnið með ríkisstjórn Verkamannaflokksins í að leysa úr núverandi ástandi – Brown þurfi engu að síður að axla ábyrðg í tímans tönn og frá því verði ekki komist.

Þá gagnrýnir hann Brown harkalega fyrir að hafa gert Bretland háð velgengni fjármálafyrirtækja með gífurlegri skuldsetningu bæði hins opinbera og eins einkageirans. Í grein sinni segir Osborne að Gordon Brown hafi hegðað sér þannig að aldrei sæi fyrir endann á uppgangi í fjármálalífinu.

Frá þessu er greint á vef The Guardian.