Gordon Brown, hvetur leiðtoga átta helstu iðnríkja heims, G-8, til þess að koma sér saman um að aðstoða ríki Afríku við að koma sér upp gjaldfrjálsri heilsugæslu þegar þeir koma saman til skrafs og ráðagerða í Þýskalandi í næsta mánuði. Og það er ekki bara einn Gordon Brown sem sendir frá sér þessi hvatningaorð heldur tuttugu og níu aðrir nafnar hans víðsvegar um Bretland sem taka undir hana. Ekki er enn vitað um afstöðu Gordons Browns, núverandi fjármálaráðherra og arftaka Tony Blairs núverandi forsætisráðherra, en beðið er eftir að hann gefi hana upp auk þeirra 809 sem bera þetta hljómmikla nafn á Bretlandseyjum.

Í tilefni af leiðtogafundi átta helstu iðnríkja heims hafa hjálparsamtökin Björgum börnunum (e. Save the Children), sem berjast fyrir að Vesturlönd aðstoði Afríkuríkin við að bæta heilsugæslukerfi sín, sett sig í samband við 840 nafna fjármálaráðherrans og ætla að fá þá til þess að taka undir kröfuna. Með þessu vilja þau freista þess að hinum verðandi forsætisráðherra verði hreinlega ekki stætt á að standa einn gegn tæplega eitt þúsund nafna sinna. Reuters-fréttastofan hefur eftir Vikki Taylor, fjölmiðlafulltrúa hjálparsamtakanna, að búið sé að senda bréf til allra þeirra sem heita Gordon Brown á Bretlandseyjum og þegar hafi þrjátíu svarað og tekið undir málstaðinn. Fjármálaráðherrann hefur ekki enn svarað.

Til þess að kynna málstaðinn enn frekar munu samtökin aka um allt Bretland til þess að leita af mönnum sem bera nafn fjármálaráðherrans og fá þá til þess að taka undir kröfuna.

Búist er við málefni Afríku beri á góma á leiðtogafundinum en gestgjafinn, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur heitið að þrýsta á að iðnríkin standi við loforð um aðstoð við álfuna og leggur áherslu á að tekistverði á við hinn skæða alnæmisfaraldur sem þar geysar.