Samkvæmt kortlagningu Met Office í Bretlandi eða London VAAC (Volcanic Ash Advisory Center) verður öll Evrópa utan hættusvæðis vegna gosösku úr Eyjafjallajökli á morgun, nema Ísland. Samkvæmt því mun Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur vera innan hættusvæðis, en Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðarflugvöllur utan þess.

Gert er ráð fyrir að hættusvæðið nái yfir suðvesturhluta Íslands í fyrramálið, austur undir Vatnajökul og þaðan til norðvesturs yfir í Húnavatnssýslu. Síðan liggi hættusvæðið um vestanvert Ísafjarðardjúp og vestur yfir Vestfjarðakjálkann. Hættusvæðið mun samkvæmt upplýsingum Met Office hvergi ná að ströndum annarra landa, en næst liggur það nærri austurströnd Grænlands.