Hagnaður Marel á öðrum ársfjórðungi 2004 var 2.530 þúsund evrur (ISK 221 milljón). Á sama tíma í fyrra nam hagnaður 1.735 þúsund evrum (ISK 174 milljónir). Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 4.566 þúsund evrur sem er 14,6% af sölu. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 3.728 þúsund evrur, 11.9% af sölu. Á fyrri hluta ársins 2004 var hagnaður Marel 3,8 milljónir evra (333 milljónir íslenskra króna), sem er besta afkoma á fyrri árshelmingi í sögu félagsins.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 7.362 þúsund evrur sem er 13,1% af sölu. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 5.702 þúsund evrur, 10,1% af sölu og hefur ekki áður verið meiri.

Árshlutauppgjör Marel samstæðunnar fyrir tímabilið janúar til júní 2004, sem hefur verið kannað af endurskoðendum félagsins og áritað án athugasemda, var samþykkt á stjórnarfundi Marel hf í dag, 10. ágúst 2004.

Samstæða Marel samanstendur af 14 fyrirtækjum með starfsemi í 9 löndum. Það nýjasta, Póls hf, bættist við í byrjun annars ársfjórðungs 2004.

Sala á fyrri hluta ársins 2004 nam alls 56,4 milljónum evra samanborið við 54,1 milljón árið áður. Salan hefur því aukist um 4,2%. Á föstu gengi evru/usd er vöxturinn hins vegar um 6%.

Framlegð af vörusölu á tímabilinu janúar til júní 2004 var 20.9 milljónir evra eða 37,1% af sölu samanborið við 17.7 milljónir eða 32.8% af sölu árið áður. Þessa hækkun á framlegð má einkum skýra með aukinni framleiðni í tengslum við aukna stöðlun á vörum og ýmsar skipulagsbreytingar svo og aukið hagræði í innkaupum.

Rekstrargjöld önnur en kostnaðarverð seldra vara námu 15.6 milljónum evra og jukust þau um 2,9%. Sölu- og markaðskostnaður var 7,3 milljónir evra sem er um 2,3% hærri en á fyrra ári. Þróunarkostnaður var um 3,6 milljón evra, óbreyttur frá 2003. Bæði í sölu og markaðsstarfi og í vöruþróun hefur megin áhersla verið á aukna framleiðni og aukin samlegðaráhrif með meiri samþættingu innan samstæðunnar. Stjórnunarkostnaður var 4,6 milljónir evra samanborið við 4,4 milljónir árið áður.

Hagnaður af rekstri Marel samstæðunnar á fyrri hluta árs 2004 nam 3,8 milljónum evra samanborið við 2,4 milljónir evra árið áður og jókst því um 59% og er orðinn meiri en hann var allt árið í fyrra. Ytri skilyrði voru þó félaginu að mörgu leyti óhagstæð, einkum gengiskrossinn á milli íslenskrar krónu og Bandaríkjadollars.

Heildareignir Marel í lok júní 2004 voru bókfærðar á 90,7 milljónir evra og hafa þær aukist um 9,4 milljónir eða 11,5% frá síðustu áramótum. Þá hækkun má að mestu rekja til aukningar í reiðufé, birgðum og viðskiptakröfum. Hækkun á viðskiptakröfum stafar einkum af nokkrum stórum verkefnum sem afhent voru í lok ársfjórðungsins. Veittur gjaldfrestur var að jafnaði 48 dagar en var 51 dagur á sama tíma í fyrra. Birgðir hækka vegna staðlaðra vara sem gert er ráð fyrir að afhenda á þriðja ársfjórðungi.

Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrsta og öðrum ársfjórðungi fyrir 0,7 milljónir evra, samanborið við 0,9 milljónir á sama tíma í fyrra. Alls voru fjárfestingar Marel 1,0 milljón evra á fyrri hluta ársins 2004.

Handbært fé frá rekstri nam 4,9 milljónum evra. Í lok júní 2004 var handbært fé 6,3 milljónir evra samanborið við 6,0 milljónir í lok júní 2003.

Starfsmenn Marel samstæðunnar voru að jafnaði 824 á tímabilinu samanborið við 756 á sama tímabili 2003. Af þessum 824 voru 292 á Íslandi í tveimur fyrirtækjum og 532 erlendis í 12 fyrirtækjum í 8 löndum.

Horfur

Verkefnastaða fyrirtækisins er þokkaleg um þessar mundir. Vegna sumarleyfa viðskiptavina dragast þó pantanir yfirleitt nokkuð saman yfir sumartímann. Aukin stöðlun framleiðsluvara félagsins gefur hins vegar möguleika á að afhenda hraðar en áður þær pantanir sem berast á þriðja ársfjórðungi. Horfur fyrir afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi eru viðunandi.

Unnið er að styrkingu á sölu- og markaðskerfi fyrirtækisins bæði á hefðbundnum mörkuðum þess í Evrópu og Bandaríkjunum og á ýmsum nýrri mörkuðum í S-Ameríku, S-Evrópu, A-Evrópu og Ástralíu.

Góður árangur hefur náðst í að auka framleiðni og lækka kostnað á undanförnum misserum. Áfram verður haldið á þeirri braut með áframhaldandi áherslu á aukna stöðlun á vörum fyrirtækisins svo og aukið hagræði í innkaupum.