Fín stemming var á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,16% og er hækkun vísitölunnar frá áramótum þar með orðin 13,37%. Velta dagsins á hlutabréfamarkaði var 1.047 milljónir króna.

Nýherji hækkaði um 3,46%, Eimskip um 1,11% og VÍS um 0,98%. Aðeins tvö félög í Kauphöllinni lækkuðu í verði í dag, Reitir um 0,15% og Icelandair um 0,60%.

Engin viðskipti voru á First North hliðarmarkaðnum í dag. Þess má til gamans geta að skráð verð Century Aluminum hefur verið það sama síðan 27. nóvember, eða 3.300 krónur á hlut.

Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa lækkaði í dag. Mest hækkaði verð hins langa RIKS 31 0124 bréfs, eða um 1,29%.