Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að viðræður hafi staðið yfir í langan tíma við samninganefnd sveitarfélaga. Búið sé að vinna töluvert mikla undirbúningsvinnu og nú séu efnislegar viðræður hafnar.

„Við erum nokkurn veginn á þeim stað sem við er að búast," segir Ólafur. „Það er ekkert leyndarmál að það sem er að gerast í kringum okkur hægir á öllu saman. Það vantar ríkisstjórn og þar af leiðandi ráðherra. Þó við séum að semja við sveitarfélögin þá hefur þetta áhrif. Ríkið er að semja við ríflega 20 félög en við erum eini aðilinn sem er með lausan samning við sveitarfélögin. Við heyrum að þeir flokkar sem nú eru að reyna að mynda stjórn hafa fundað með aðilum vinnumarkaðarins. Þó ég hafi ekki setið þá hefur komið fram að þar hafi skattkerfisbreytingar komið til tals og Salek. Þetta hefur allt áhrif á okkur."

Ólafur segir að ný ríkisstjórn verði að horfast í augu við að hér ríki kennaraskortur.

„Þetta er grafalvarlegt mál. Ef fram heldur sem horfir verður ástandið nánast óbærilegt eftir aðeins 5 til 7 ár. Í dag eru yfir 300 manns að kenna í við grunnskóla án þess að hafa leyfisbréf. Þegar að vel árar þá eru grunnskólarnir ekki samkeppnishæfir því kennararnir leita í önnur betur launuð störf. Það eru tíu þúsund manns með grunnskólakennararéttindi en einungis fimm þúsund starfa sem kennarar. Hið opinbera verður að horfast í augu við þetta. Ef ekki á að fara mjög illa þá verður að gera eitthvað. Laga starfsumhverfið og hækka launin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .