Alan Greenspan fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði í viðtali við CNN í dag að hagvöxtur í Bandaríkjunum færi minnkandi en að innan við helmingslíkur væru á samdrætti.

Í viðtalinu kom einnig fram, samkvæmt Reuters fréttaveitunni, að óróinn vegna undirmálslánakrísunnar færi minnkandi og að fjármálamarkaðir væru að byrja að færast í eðlilegt horf. Haft er eftir Greenspan að Bandaríkjamenn ættu að vera á varðbergi gagnvart efnahagslífinu en ekki endilega á taugum. Greenspan bætti við að hann teldi að ríkið eða seðlabankinn ættu ekki að aðhafast mikið til að koma í veg fyrir niðursveiflu. Vafasamt væri að nokkuð væri hægt að gera og að hagkerfið væri flókið og jafnaði sig sjálft.