Flugvélaframleiðandinn Airbus hefur náð samkomulagi við stjórnvöld í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum um sektargreiðslu í kjölfar rannsóknar á spillingar- og mútumálum tengdu félaginu. Rannsókn á málum félagsins hafði leitt í ljós að félagið hefði í einhverjum tilfellum notað milligöngumenn með ólögmætum hætti við sölu á vélum sínum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus. Þar kemur fram að dómstólar í löndunum þremur eigi eftir að samþykkja fyrirkomulag sáttarinnar. Nákvæm fjárhæð bóta hefur ekki verið gefin út en heimildir BBC herma að fjárhæðin gæti numið allt að þremur milljörðum evra, andvirði um 410 milljarða í íslenskum krónum.

Rannsókn yfirvalda í ríkjunum þremur hefur staðið yfir frá árinu 2016 en hún hófst með tilkynningu frá fyrirtækinu sjálfu.