Erlend greiðskukortavelta jókst um 31% á milli ára, og var hún sú mesta í einum mánuði frá upphafi. Nam hún 31,4 milljörðum króna í júlí síðastliðnum, en 24 milljörðum í sama mánuði 2015.

Fyrra met var sett í júní síðastliðnum þegar erlendir ferðamenn greiddu vörur og þjónustu fyrir 26 milljarða króna með kortum sínum. Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar .

Alls staðar vöxtur

Var vöxtur í öllum útgjaldaliðum, en nam hann um 45,6% í dagvöruverslun í júlí miðað við sama mánuð í fyrra. Greiddu erlendir ferðamenn 1.357 milljónir í þess háttar verslunum í júlímánuði í ár.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í ferðaþjónustu jókst um 43% á milli ára, en þar er um að ræða í skipulagðar ferðir á borð við hvalaskoðun, gönguferðir, rútuferðir, hálendisferðir og svo framvegis.

Rúm 60% aukning í flugi

Enn meiri vöxtur er í farþegaflutningum með flugi, en erlend kortavelta í þeim flokki nam rúmum þrem milljörðum, sem er aukning um 61,1% frá júlí 2015. Þó er vöxturinn nokkuð minni nú en undanfarna átta mánuði, enda er nú háannatími ferðaþjónustu senn á enda og flugferðir jafnan keyptar nokkuð fram í tímann.

Vöxtur kortaveltu erlendra ferðamanna í kaupum á gistiþjónustu var 30,8% miðað við sama mánuð í fyrra, alls greiddu þeir 6,2 milljarða fyrir hana.

Nálega þriðjungsaukning ferðamanna í júlímánuði

Veitingastaðir sáu vöxt sem nam 29,5%, og heildareyðslu sem nam 3,5 milljörðum króna. 2,8 milljarðar fóru í bílaleigubíla sem er 36% aukning frá því í júlí 2015. Auk þess jókst eyðsla ferðamanna í menningartengda ferðaþjónusta um 39%.

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu komu 236 þúsund ferðamenn til landsins í júlímánuði, sem er 30,6% fleiri en í sama mánuði í fyrra.