*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Erlent 29. nóvember 2020 16:03

Greiðsluþrot blasir við Norwegian

Lausafé norska flugfélagsins Norwegian kann að vera uppurið í janúar. Félagið er því í enn einum björgunarleiðangrinum.

Ingvar Haraldsson
epa

Lausafé norska flugfélagsins Norwegian kann að vera uppurið í janúar samkvæmt frétt norska viðskiptamiðilsins E24. Félagið þarf því nauðsynlega á frekara fé og greiðslufresti að halda. Dótturfélög Norwegian á Írlandi fóru í greiðslustöðvun í síðustu viku. Stærstur hluti af skuldum Norwegian er tilkominn vegna skuldbindinga írsku félaganna.

Ákvörðunin kom í kjölfar þess að norsk stjórnvöld tilkynntu að þau myndu ekki veita Norwegian frekari fjárstuðning þann 8. nóvember. Degi síðar tilkynnti lyfjafyrirtækið Pfizer um jákvæðar niðurstöður rannsókna á bóluefni við kórónuveirunni. Norsk stjórnvöld hafa þó ekki skipt um skoðun.

Einungis fjórðungur starfsfólks Norwegian er staðsettur í Noregi og um fimmtungur af flugferðum félagsins er innan Noregs. Það sé mál kröfuhafa félagsins og hluthafa að finna lausn á fjárhagsvanda félagsins, sem eru að stórum hluta erlendir flugvélaleigusalar í eigu kínverska ríkisins og alþjóðlegra fjárfestingafélaga. Þá kann aukin samkeppni að hafa áhrif á ákvörðun  norskra stjórnvalda. Nýlega tilkynnti ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air að það hygðist hefja innanlandsflug í Noregi. Auk þess eru reynsluboltar úr norskum flugheimi með nýtt flugfélag á teikniborðinu.

Innkoma Wizz Air er umdeild í Noregi. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur þó gefið út að hún hyggist ekki fljúga með Wizz Air vegna stöðu kjaramála hjá flugfélaginu og réttinda starfsmanna. 

Kröfuhafar tapa nær öllu við gjaldþrot

Í skýrslu sem Deloitte vann í tengslum við greiðslustöðvun Norwegian á Írlandi kemur fram að ef Norwegian færi í þrot myndu kröfuhafar félagsins tapa jafnvirði um 64 milljarða norskra króna, um 980 milljarða íslenskra króna. Bókfært virði skulda Norwegian í lok september var um 67 milljarðar norskra króna eða um 1.020 milljarðar íslenskra króna.

Því mun gjaldþrot vart koma kröfuhöfum til góða. Í skýrslunni segir enn fremur að ef áætlanir stjórnenda ganga eftir um niðurskurð og eignasölu auk þess að kröfuhafar fallist á frekari skuldbreytingu kann að vera að reksturinn geti orðið arðbær. Stjórnendur félagsins stefna að því að félagið verði farið að skila hagnaði árið 2022. Þann 7. desember mun dómari á Írlandi taka ákvörðun um hvort greiðslustöðvunin verði framlengd en hún getur varað í allt að 150 daga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Norwegian flug