Greinargerð embættis sérstaks saksóknara um innanhússrannsókn á rannsakendum í Vafningsmálinu svokallaða verður tekin gild, samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Verjendur þeirra Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, kröfðust þess að greinargerðin yrði ekki tekin gild.

Fram kemur í umfjöllun Vísis um málið að Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari, hafi lagt fram greinargerð við fyrirtöku frávísunarhluta málsins í morgun, þar sem meðal annars kom fram að innanhúsrannsókn embættis sérstaks saksóknara benti til þess að rannsakendurnir Guðmundur Haukur Gunnarsson og Jón Óttar Ólafsson hafi ekki grafið undan málinu með gjörðum sínum. Þeir hafa báðir verið kærðir til ríkissaksóknara vegna meintra brota á þagnarskyldu í starfi sínu þegar þeir unnu fyrir skiptastjóra þrotabús Milestone. Verjendurnir, þeir Þórður Bogason og Óttar Pálsson, mótmæltu þessu og töldu greinargerðina ekki eiga erindi í málinu.

Fram kom í fréttum RÚV af málinu að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur