Greiningardeild Arion banka telur að hlutur í stoðtækjafyrirtækinu Össuri eigi að vera 14% hærri en það er samkvæmt síðasta gengi í Kauphöllinni. Greiningardeildin ráðleggur því fjárfestum að kaupa hluti í Össuri. Þetta kemur fram í uppfærðu virðismati á fyrirtækinu í framhaldi af uppgjöri annars ársfjórðungs og ákvörðun um kaup á sænska heilbrigðisþjónustufyrirtækinu TeamOlmead.

Mat Greiningar Arion banka er að virði hvers hlutar sé 1,60 bandaríkjadalir sem samsvarar 192 í íslenskum krónum. Það samsvarar tæplega 3% hækkun mats í bandaríkjadölum og 1% hækkun í íslenskum krónum.

Fært yfir í danskar krónur er virðismatið um 6% yfir síðasta viðskiptaverði (8,50 krónur á hlut) en undanfarna mánuði hefur verð bréfa í Össuri verið hærra í Kaupmannahöfn en í Reykjavík. Greiningardeildin segir að uppgjör Össurar fyrir annan ársfjórðung hafi verið nokkuð í samræmi við væntingar sínar. Það litist af þeim aðhaldsaðgerðum sem framkvæmdar hafi verið en félagið segir 4,5 milljónir bandaríkjadala hafa fallið til á fjórðungnum sem kalla megi einskiptiskostnað vegna þessara aðgerða.

Til viðbótar hafi svo fallið til 500 þúsund dala kostnaður vegna kaupanna á TeamOlmed. Ef aðlagað sé fyrir þessum kostnaði hafi EBITDA-framlegð á liðnum fjórðungi verið 19,1% og hefur ekki verið svo há á fjórðungi í tvö ár. Þegar á öðrum fjórðungi hafi sparast ein milljón bandaríkjadala vegna aðhaldsaðgerðanna en að sögn stjórnenda félagsins sé von á áhrifum að upphæð fjórar milljónir dala á síðari helmingi ársins.