Í gær kynntu forstjórar íslensku bankanna stöðu þeirra á alþjóðlegri bankaráðstefnu í London sem sótt er af evrópskum fjárfestum og greiningaraðilum.

Erlendir fjölmiðlar hafa einnig fjallað ítarlega um stöðuna á Íslandi síðustu daga og leitað skýringa á óvenjulegri stöðu mála hér á landi og sögusögnum um mögulegar „árásir" á  þá markaði er mestu ráða um gengi krónunnar og hlutabréfaverð. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

„Markaðurinn fyrir skuldatryggingar íslensku bankanna er bæði ógegnsær og frekar „þunnur", þ.e. samningarnir eru ekki verðlagðar í formlegum kauphallarviðskiptum, fáir aðilar bjóða þá og viðskipti eru strjál, sem gerir það að verkum að flökt í verði er tiltölulega hátt. Þá má einnig leiða að því getum miðað við þróun verðlagningarinnar undanfarna mánuði að þessi markaður sé einkar viðkvæmur fyrir nýjum fréttum,“ segir í Vegvísi.

Greiningadeild Landsbankans segir einnig að hátt skuldatryggingarálag undanfarið virðist ekki endurspegla líkur á að bankarnir geti staðið við skuldbindingar um endurgreiðslu á lánum.

„Miðað við eðlilega verðmyndun þessara samninga ættu þeir sem halda á styttri skuldabréfum bankanna að meta líkur á gjaldþroti bankanna á bilinu 40-60%. Það jafngildir því að bankarnir séu þegar komnir í algjör þrot. Því fer auðvitað fjarri,“ segir í Vegvísi.

Umframeftirspurn eftir skuldatryggingum

Greiningadeildin segir að tvennt geti því skýrt hvers vegna álagið hefur náð þessum hæðum.

Annars vegar þrálátur orðrómur um að skortsalar hafi notfært sér þrönga stöðu á skuldatryggingarmarkaði til þess að keyra upp verð og búa til óvissu um endurfjármögnun bankanna sem aftur hefur átt sterkan þátt í því að hlutabréfaverð þeirra fellur eins og dæmin sanna.

Hins vegar að viðskipti með skuldabréf bankanna á eftirmarkaði hafa aukist að undanförnu þar sem vogunarsjóðir og fjármálafyrirtæki um allan heim hafa verið að vinda ofan af skuldabréfavafningum til þess að lágmarka áhættu.

„Skuldabréf íslensku bankanna höfðu ratað inn í marga slíka vafninga undanfarin 1-2 ár vegna þess að bréfin þóttu fýsilegur fjárfestingakostur vegna verðlagningar og hárrar lánshæfiseinkunnar útgefenda. Þannig hefur myndast umframeftirspurn eftir skuldatryggingum en framboð á þeim hefur jafnframt verið takmarkað út af almennri áhættufælni í kerfinu,“ segir í Vegvísi.

Þá segir jafnframt: „Enn er of snemmt að fullyrða að komið sé að vendipunkti fyrir skuldatryggingarálag bankanna en fréttir í dag og hversu breytingin var afgerandi eru jákvæðar. Þar sem markaðurinn er bæði næmur og óskilvirkur getur vel verið að frekari lækkun verði jafn óvænt og ýkt og hækkunin hefur verið. Þróunin næstu daga mun leiða það betur í ljós.“