Eins og frá var greint í morgun var vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í apríl  300,3 stig og hækkaði um 3,4% í fyrra mánuði. Þannig hefur vísitala neysluverðs hefur hækkað um 11,8% síðustu 12 mánuði.

Greiningadeildir bankanna gerðu í verðbólguspám sínum fyrir apríl ráð fyrir hækkun neysluvísitölunnar upp á 1,7% - 1,9% og þar með 12 mánaða verðbólgu upp á 9,9% - 10,2%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá verðbólguspár bankanna ásamt 12 mánaða verðbólgu í apríl.

Kaupþing spáði 1,7% hækkun vísitölu neysluverðs í apríl og 9,9% verðbólgu (í spá Kaupþings kom fram að verðbólga yrði um 10%).

Glitnir spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 1,8% milli mánaða þannig að verðbólgan yrði 10%. Fyrir helgi breytti Greining Glitnis spá sinni og gerði ráð fyrir 10,2% verðbólgu.

Landsbankinn spáði því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 1,9% í apríl. Hefði spáin gengið eftir hefði 12 mánaða verðbólga mælst 10,1% í apríl.

Allar greiningadeildir gáfu sér að svipaðir þættir myndu drífa áfram verðbólgu; veiking krónu ásamt verðhækkun á eldsneyti og hrávörum og er þá helst vísað til matvöru. Þá lagði Greining Glitnis sérstaka áherslu á að ró haldist á vinnumarkaði og varaði við frekari launakröfum.

Svo virðist sem verð á vörum hafi hækkað bæði fyrr og hraðar en greiningadeildirnar gerðu ráð fyrir.

Rétt er þó að taka fram að Greiningadeild Landsbankans tekur fram í sinni spá að í mars hækkaði matur og drykkjarvörur minna en greiningadeildin hafði þá gert ráð fyrir. Greiningadeild bankans sagði líkur á að hækkun matvöruverslana myndi koma fram af miklum þunga í næstu mælingu „og þar muni mesta hækkun á mjólkurafurðum í áratugi gefa tóninn,“ sagði í verðbólguspá Greiningadeildar Landsbankans.

Gengissig íslensku krónunnar undanfarið hefur skilað sér mjög hratt út í verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 6,2%, segir á vef Hagstofu.

Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 7,1%. Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 11,0% og á bensíni og olíum um 5,2% (0,24%).

Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 6,4%. Þar af hækkaði verð á mjólk og mjólkurvörum um 10,2%.