Greiningadeildir bankanna hafa nú birt verðbólguspá sína fyrir apríl og er nokkur samhljómur í spám þeirra. Kaupþing spáir 1,7% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í apríl og 9,9% verðbólgu (í spá Kaupþings kemur fram að verðbólga verði um 10%).

Glitnir spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 1,8% milli mánaða þannig að verðbólgan verði 10%.

Landsbankinn spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 1,9% í apríl. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 10,1% í apríl.

Allar greiningadeildir gefa sér að svipaðir þættir muni drífa áfram verðbólgu; veiking krónu ásamt verðhækkun á eldsneyti og hrávörum og er þá helst vísað til matvöru. Þá leggur Greining Glitnis sérstaka áherslu á að ró haldist á vinnumarkaði og varar við frekari launakröfum.

Áhersla á matvöru

„Við teljum [...] líkur á að hækkun matvöruverslana komi fram af miklum þunga í næstu mælingu og þar muni mesta hækkun á mjólkurafurðum í áratugi gefa tóninn. Ákvörðun verðlagsnefndar búvara um 14,6% hækkun á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum tók gildi 1. apríl en við teljum að þessi hækkun smitist yfir í aðra innlenda matvælaframleiðslu og valdi því frekari hækkunum. Auk þess er stór hluti matvæla innfluttur og fer matvælaverð því ekki varhluta af gengisfalli krónunnar,“ segir Greiningadeild Landsbankans í verðbólguspá sinni.

Greining Glitnis tekur í sama streng. „Við eigum von á að hækkunarhrina í þessum undirlið VNV sé ekki liðin hjá og að búast megi við áframhaldandi hækkun hans á 2. Ársfjórðungi,“ segir í verðbólguspá Glitnis.

Vextir af húsnæðislánum hækka

Húsnæðisverð hefur haldið áfram að lækka síðustu misseri en vextir af húsnæðislánum hækka húsnæðisliðinn í verðbólgumælingu og sá hluti hefur hækkað undanfarið.

Greiningadeild Kaupþings segir markaðsverð húsnæðis hafa í síðustu verðmælingum haft óveruleg áhrif á verðbólgutölur en húsnæðisliðurinn áfram hækkað vegna hækkandi raunvaxta nýrra íbúðalána á síðasta ári. Þá er gert ráð fyrir svipuðum áhrifum í aprílmælingu Hagstofunnar.

Þá gerir Greiningardeild Kaupþings ráð fyrir að verðbólga mælist áfram há í maímælingu Hagstofunnar. „Í sumar tekur hins vegar að draga úr verðbólguhraðanum þegar áhrif yfirskots krónunnar hafa gengið yfir og hækkandi raunvextir íbúðalána á árinu 2007 hafa ekki lengur áhrif á verðmælingar Hagstofunnar,“ segir í verðbólguspá Kaupþings.

Gert ráð fyrir að verðbólgumarkmið náist á seinni hluta 2009

„Við gerum ráð fyrir að verðbólga frá upphafi til loka þessa árs verði 8,4% að því gefnu að veiking krónunnar gangi að hluta til baka. Gangi spá okkar eftir næst verðbólgumarkmið um mitt ár 2009 en í kjölfarið fer verðbólga þó tímabundið hækkandi á ný,“ segir Greiningadeild Landsbankans.

Greining Glitnis telur að þegar kröftugu verðbólguskoti á 2. ársfjórðungi líkur megi ætla að nokkuð hratt muni draga úr verðbólgu, en hér er þó gert ráð fyrir að ársverðbólgan muni mælast yfir 10% fram í ágúst.

„Frá og með haustinu teljum við að hratt muni draga úr árshraða verðbólgunnar, að hún verði nálægt 7% í árslok og að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans náist um mitt næsta sumar og verði jafnvel nokkru undir verðbólgumarkmiðinu á seinni hluta næsta árs,“ segir greining Glitnis í verðbólguspá sinni.

Ró á vinnumarkaði mikilvæg

Glitnir segir forsendur þess að þetta gangi eftir vera fyrst og fremst þær að gengi krónunnar taki að hækka á ný í sumar og að krónan styrkist nokkuð út spátímabilið. Þá segir í spá Glitnis að ró á vinnumarkaði skipti miklu.

„Kostnaðarþrýstingur frá síðasta ári hefur hlaðist upp og við bætist nú kostnaðarauki vegna nýgerðra kjarasamninga. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að ef samið verður um meiri hækkun en þegar hefur verið gert í nýjum samningum má gera ráð fyrir að það muni koma beint fram í meiri hækkun verðlags. Verði farið af stað með nýjar og meiri launakröfur en þegar hefur verð samið um eykst hættan á víxlverkun launa, verðbólgu og gengis en slíkt myndi óhjákvæmilega hafa aukna verðbólgu í för með sér,“ segir Greining Glitnis í verðbólguspá sinni.