Gangi spá Greiningardeildar Landsbankans eftir um 1,2% hækkun verðlags í júní eykst 12 mánaða verðbólga í 13,1% samanborið við 12,3% í maí. Greiningardeildin telur að verðbólga nái hámarki í tæplega 14% í ágúst en verði 3,5 % í maí á næsta ári. Síðustu 4 mánuði hefur vísitala neysluverðs (VNV) hækkað um 7,6% en það jafngildir um 25% verðbólgu á ársgrundvelli. Áhrif veikingar krónunnar á verðlag eru að miklu leyti komin fram en þó teljum við að enn sé nokkur hækkun eftir í pípunum. Í verðbólgumælingu maímánaðar hafði kostnaður vegna eigin húsnæðis áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs í fyrsta sinn í 16 mánuði. Greiningardeildin á  von á því að í júní muni fasteignaverð áfram draga úr verðbólgu á sama tíma og innflutningsverðlag hækkar enn.