Misbrestur var á greiðslu af víxli hjá fjárfestingarfélaginu Styrk Invest, áður BG Capital, um síðustu mánaðamót, en greiðslan var afgreidd þegar tæpar tvær vikur voru liðnar frá gjalddaga.

Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri félagsins, segir töfina vera eðlileg mistök. „Þarna var nýr maður að taka við, þ.e.a.s. ég, og málið stafaði af því að greiðsluupplýsingar bárust ekki á réttan stað. Hér er því um sárasaklaus mistök að ræða,“ segir Eiríkur og bætir því við að seinkunin sé ekki vísbending um að félagið eigi í lausafjárvandræðum.

Styrk Invest hét áður BG Capital og var þá að fullu í eigu Baugs. Þegar endurskipulagning Baugs átti sér stað í apríl sl. var hlutafé Styrks aukið og Kaldbakur, fjárfestingarfélag Samherja, kom inn með 34% eignarhlut, en meirihlutaeigandi er Gaumur, eignarhaldsfélag Jóhannesar Jónssonar og fjölskyldu. Stærsta eign Styrks Invest er meirihlutaeign í Stoðum, áður FL Group.