Í byrjun vikunnar var greint frá því að WOM Chile, fjarskiptafyrirtæki í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði sótt um greiðsluskjól í Bandaríkjunum (e. Chapter 11 bankruptcy protection).

Novator kom WOM á laggirnar í Chile árið 2015 eftir að hafa keypt Nextel, fremur smátt fjarskiptafyrirtæki þar í landi með liðlega 1% markaðshlutdeild. Vel gekk að byggja upp félagið með sambærilegum hætti og er félagið með 25% markaðshlutdeild í dag.

Á fyrstu rekstrarárum WOM Chile lagði Novator um 400 milljónir dala, sem var þá um 50 milljarðar króna, í rekstur félagsins. Árið 2019 greiddi WOM Chile út 250 milljónir dala, eða yfir 30 milljarða króna, í arð til Novator sem var fjármagnað með skuldabréfaútgáfu.

Árið 2022 seldi WOM Chile um 3.800 sendistöðvar þar í landi fyrir um 930 milljónir dala. Félagið nýtti hluta af söluandvirðinu, 340 milljónir dala eða yfir 45 milljarða króna, í arðgreiðslu til hluthafa. Ætla má að stór hluti arðgreiðslunnar hafi farið í uppbyggingu á WOM í Kólumbíu.

Hægja á markaðssókn í Kólumbíu

Árið 2020 hóf Novator innreið sína á kólumbíska fjarskiptamarkaðinn með kaupum á meirihluta í félaginu Avantel. Novator hefur lagt ríka áherslu á að byggja upp rekstur WOM í Kólumbíu, með sambærilegum hætti og það hefur áður gert í Póllandi, Chile og með Nova á Íslandi.

Formúlan er yfirleitt af sama toga. Fjarskiptafélagið nær athygli fjölmiðla og almennings með áberandi og jafnvel umdeildum auglýsingaherferðum og reynir um leið að bjóða ódýrari vöru og þjónustu en keppinautarnir.

WOM Chile lýsti því yfir á seinni árshelmingi 2023 að félagið hygðist setja frekari fjárfestingar í rekstri WOM Columbia á ís þar til það hefði lokið endurfjármögnun. Þannig var fjárfesting WOM Chile í kólumbíska rekstrinum aðeins um 16 milljónir dala, en áður hafði verið gert ráð fyrir um 100 milljóna dala fjárfestingu.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og greinina í heild sinni hér.