Greiningardeild Kaupþings hefur hækkað verulega hagvaxtarspá sína fyrir árið 2007 frá síðustu spá sem birtist í október. Nú er gert ráð fyrir 3,4% hagvexti samanborið við þann 0,2% samdrátt sem áætlaður var í haust.

Þetta er umtalsverð breyting og telur greiningardeildin að fyrir því séu þrjár skýringar:  Í fyrsta lagi virðast landsmenn hafa endurheimt bjartsýni sína og neyslugleði sem þeir virtust hafa tapað í vor við gengisfall og neikvæða umræðu. Þetta sést af því að væntingavísitalan náði sögulegu hámarki í desember og jólavertíðin hjá kaupmönnum virðist hafa gengið einstaklega vel.

Í öðru lagi er nú ljóst að ríkisútgjöld hækka og skattar lækka meira en gert var ráð fyrir í október. Aukning ríkisútgjalda á milli áranna 2006 og 2007 nemur um 30 milljörðum en mestu máli skiptir þó að lækkun tekju- og virðisaukaskatta mun hvetja einkaneyslu áfram á árinu. Alls má áætla að ef lögð er saman hækkun kauptaxta og lækkun tekjuskatts og matarskatts muni kaupmáttur launafólks aukast um rúmlega 5% nú í upphafi ársins. Og munar víst um minna.

Í þriðja lagi gerir Greiningardeild núna ráð fyrir því að nýr áfangi í stóriðjuframkvæmdum hefjist í Hafnarfirði með stækkun á álveri Alcans. Sá áfangi telur líklega eitthvað um 130 milljarða sem falla að vísu til á nokkrum árum.