Áætlað er að kostnaður Kínverja af því að halda Ólympíuleikana sé á bilinu 25-40 milljarðar Bandaríkjadala (2.000-3.300 milljarðar íslenskra króna).

Engar opinberar tölur hafa verið birtar um kostnaðinn en kínverskir embættismenn segja kostnaðinn ekki verða meiri en hann varð vegna leikanna í Aþenu 2004, sem kostuðu um 2,6 milljarða dala samkvæmt opinberum tölum. Skipulagsnefnd leikanna segir að kostnaðurinn verði nálægt 2 milljörðum dala af leikunum í Peking.

Opinber kostnaður er þó einungis lítið brot af raunverulegum kostnaði vegna leikanna, en inni í hinum opinbera kostnaði er ekki kostnaður vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja og betrumbóta á samgöngum sem hafist var handa við vegna leikanna.

Átta nýjum leiðum hefur verið bætt við neðanjarðarlestakerfi Peking, flugstöðin þar hefur verið stækkuð og vegakerfi borgarinnar bætt. 12 nýbyggingar hafa risið fyrir leikana og 20 byggingar endurgerðar auk þess sem gripið hefur verið til umfangsmikilla aðgerða til að koma í veg fyrir mengun í Peking meðan á leikunum stendur.

Auk þess hafa kínversk stjórnvöld ráðist í mikla auglýsingaherferð til að venja landsmenn af ýmsum ósiðum, t.d. því að hrækja á götur, svo að landið komi vel fyrir á leikunum.

Sé allt þetta tekið með í reikninginn er kostnaðurinn talinn vera á bilinu 25-40 milljarðar Bandaríkjadala, en ekki í kringum 2 milljarða, sem mun líklega verða opinbera talan sem gefin verður upp.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.