Um helmingur af nýju fólksbílunum sem seldust frá janúar og til loka maí, 1.772 bílar af 3.338 bílum, voru keyptir af bílaleigum. Heildarsala á nýjum fólksbílum hefur aukist um 76,6 prósent á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Við sjáum breytingu núna. Fólk er aðeins farið að kaupa sér nýja bíla. Þetta er þó ekkert orðið eins og væri í eðlilegu ári,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins í frétt Morgunblaðsins. Hann segir að eðlileg endurnýjunarþörf bílaflotans sé talin vera 12-14 þúsund bílar á ári. Miðað við það hefði þurft að flytja inn 5-6 þúsund nýja bíla fyrstu fimm mánuði ársins.