Grikkir eiga að íhuga fyrir alvöru að kasta evrunni fyrir róða. Hins vegar er ekki hyggilegt fyrir þá að taka drökmuna upp á nýjan leik. Geri þeir það er hætta á að gengi hennar hrynji á einni nóttu, hún verði um tíma álíka verðlaus og Zimbabve-dollarinn var um tíma. Þá munu utanríkisviðskipti glutrast niður í kjölfarið og hagkerfi Grikkja fara svipaða leið á stuttum tíma.

Raunsærra er að fylgja fordæmi Íslendinga og skoða fremur upptöku annars gjaldmiðils, svo sem Bandaríkjadals. Þetta er mat Matthew Lynn, forstjóra breska ráðgjafafyrirtækisinss Strategy Economics. Lynn virðar þessar vangaveltur sínar í pistli á netmiðlinum MarketWatch í dag.

Lynn segir í umfjöllun sinni um skuldakreppuna á Grikklandi fréttir um vangaveltur manna hér um upptöku Kanadadollars með þeim forvitnilegri sem hann hafi rekið augun í í síðustu viku. Litlu skipti, að hans sögn, þótt stjórnvöld í Kanada hafi þegar upp var staðið ekki tekið jafn vel í hugmyndina og fjármálaspekúlantar hér.

Lynn telur upptöku Bandaríkjadals í raun eina af þeim leiðum sem færar eru fyrir Grikki til að komast í gegnum kreppuna. Reyndar þurfi að fá vilyrði frá Barack Obama, forseta Bandaríkjanna og bandaríska seðlabankans sem myndi í kjölfarið opna fyrir lánalínur til Grikklands. Gangi það eftir geti stuðningurinn skilað honum endurkjöri í haust, að mati Lynn.

Pistill Matthew Lynn í MarketWatch