Stjórnir þriggja grískra banka hafa lýst yfir vilja til að létta undir með nágrönnum sínum á Kýpur og kaupa banka og fjármálafyrirtæki þar sem standa höllum fæti. Með kaupunum er jafnframt horft til þess að koma bönkunum til bjargar. Fulltrúar fjármálastöðugleikasjóðs Grikkja fundar nú um málið, að sögn Reuters-fréttastofunnar .

Grísku bankarnir áttu reyndar ekki frumkvæðið að viðskiptunum enda eru þau ein af skilyrðum fjármálaráðherra evruríkjanna fyrir veitingu neyðarlána til Kýpur til að gera landinu kleift að standa við skuldbindingar sínar og koma í stað skatts á innstæður í bönkum. Bankar á Kýpur hafa látið á sjá í skuldakreppunni á evrusvæðinu en þeir hafa þurft að afskrifa mikið af lánum sem þeir veittu Grikkjum í góðærinu.

Fjárfestar beggja vegna Atlantsála róuðust nokkuð í kjölfar þess að greint var frá viðræðum um viðskiptin í dag. Þeir höfðu miklar áhyggjur af því að hugsanlegt gjaldþrot Kýpur gæti aukið enn á áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu.