Grísk stjórnvöld hafa formlega óskað eftir sex mánaða framlengingu á fjárhagslegri aðstoð frá alþjóðasamfélaginu. Grikkir eru ekki að óska eftir framlengingu á gildandi björgunarpakka, sem rennur út um næstu mánaðamót, heldur vilja þeir fá nýtt samkomulag til sex mánaða. Ekki er enn vitað nákvæmlega hvað í beiðni Grikkja felst að öðru leyti, en gert er ráð fyrir því að í henni vilji Grikkir losna undan skilyrðum núverandi samkomulags um aðhald í ríkisrekstri.

Þá er vitað að Grikkir munu skuldbinda sig til að viðhalda "jafnvægi" í ríkisrekstri yfir umrætt sex mánaða tímabil, en nota á tímann til að ná samkomulagi við Evrópusambandið til lengri tíma. Kemur þetta fram í frétt BBC.

Lífsnauðsynlegt er fyrir grísk stjórnvöld að ná einhvers konar samkomulagi við Evrópu, vegna þess að ríkissjóður mun mjög hratt verða uppiskroppa með fé ef ekkert liggur fyrir þegar björgunarpakkinn rennur út þann 28. febrúar.