Brúnin léttist á fjárfestum sem eiga eignir í Evrópu í morgun eftir að greint var frá því að Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, ætli að funda með þeim Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Fracois Holland og Jean-Claude Junker, forsætisráðherra Lúxemborgar, um skuldavanda heimalands síns. Tilgangur ferðar Samaras er einkum sá að tryggja löndum sínum meira lánsfé svo Grikkir geti staðið við skuldbindingar sínar í skugga þess að stjórnvöldum hefur mistekist að ná markmiðum sínum í niðurskurði á fjárlögum hins opinbera. Helstu hlutabréfavísitölur á meginlandinu hafa hækkað lítillega í dag.

Reuters-fréttastofan segir fjárfesta einkum horfa til vísbendinga um það hvort og ef af verði hvenær evrópski seðlabankinn muni koma Grikkjum, Spánverjum og Ítölum til hjálpar með kaupum á ríkisskuldabréfum. Búist er við því að nánari útlistun á því hvað evrópski seðlabankinn hyggist gera verði gefin út fyrir áramót.

Reuters bendir á að þótt evrópski seðlabankinn og ráðamenn á evrusvæðinu snúi bökum saman gegn skuldavanda verst settu aðildarríkja myntbandalagsins þá séu löndin langt í frá komin í skjól. Þvert á móti megi lesa út úr skýrslu matsfyrirtækisins Moody's sem gefin var út á dögunum að búast megi við að stjórnvöld landanna muni þurfa að vinda ofan af vandanum næstu árin.