Nauðsynlegt er að aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við breyttum efnahagshorfum séu skýrar, afgerandi og fumlausar. Sé það ekki raunin skapist hætta á að atvinnurekendur grípi til öfgakenndra viðbragða sem auki líkurnar á því að fyrirséð niðursveifla verði langdregnari en ella. Þetta kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, varaformanns Viðreisnar, í umræðum á Alþingi um viðbrögð stjórnvalda við efnahagsástandinu sem Covid-19 veiran hefur skapað.

„Vandinn er tvíþættur. Við erum að glíma við landvarandi niðursveiflu sem hófst fyrir um ári síðan. Henni hefur því miður ekki verið mætt af nægjanlegri festu af núverandi ríkisstjórn. Ofan í þetta hefur ferðaþjónustan verið í hörðu árferði í átján mánuði sem gerir greininni erfiðara um vik að takast á við þetta högg. Við þessar aðstæður þurfum við skýr, afgerandi og fumlaus viðbrögð,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn vísaði meðal annars í blaðamannafund ríkisstjórnarinnar síðastliðinn þriðjudag þar sem nokkrar fyrirhugaðar aðgerðir voru tilgreindar. Að hans mati var fundurinn harla innistæðulítill og óskýr um framhaldið. Bar hann fundinn saman við yfirlýsingu fjármálaráðherra Bretlands sem kynnt var breska þinginu í gær.

„Þar lagði hann fram skýrar tölusettar aðgerðir sem ríkisstjórn Bretlands hyggst ráðast í [...]. Þar voru á ferð skýrar og afgerandi aðgerðir sem tóku mið af því sem mestu máli skiptir, að lina höggið,“ sagði Þorsteinn. Tók hann dæmi af fyrirtækjum í ferðaþjónustu þar sem tekjugrundvöllur ýmissa aðila hvarf í raun á einni nóttu.

„Það er engin leið til að sjá hvar það endar og það skapar hættu á að viðbrögð verði öfgafull, fyrirtæki muni grípa til uppsagna sem geta, ef ekki er brugðist við áður, leitt til þess að það sem ætti að vera skammvinnt, stórt högg gæti orðið langvinn efnahagsniðursveifla. Viðbrögðin verða að vera skýr og til þess að hjálpa fyrirtækjum sem geta ekki annað en fækkað fólki,“ sagði Þorsteinn.

Meðal þess sem Þorsteinn leggur til er að skapað verði svigrúm þannig að fólk geti farið tímabundið á atvinnuleysisbætur án þess að því sé sagt upp störfum. Með því móti sé skapað svigrúm fyrir fyrirtæki sem geta ekki fækkað starfsfólki nægilega hratt og þeim forðað frá þroti. Þá megi ekki gleyma að taka einyrkja með í myndina sem oft eiga engan uppsagnar- eða veikindarétt.

„Í áðurnefndum áætlunum Breta er gert ráð fyrir því að allt að fimmtungur landsmanna kunni að vera í veikindaorlofi á hverjum tíma meðan veiran er að ganga yfir. Ljóst er að slíkt yrði gríðarlegur baggi. Hvernig er hægt að létta á þeirri byrði sem því fylgir? Skammtíma aðgerðir verða að vera afgerandi,“ segir Þorsteinn.

Einnig leggur hann til að tryggingagjaldið sé lækkað til lengri tíma litið og það íhugað að fella það niður tímabundið, hvort sem það verður gagnvart völdum fyrirtækjum eða atvinnulífið í heild.

„Til lengri tíma litið þurfum við að grípa til afgerandi fjárfestinga sem ráðist verður í sem allra fyrst þannig að vor og sumar nýtist. Við megum heldur ekki gleyma að oft leynast tækifæri í þrengingum, til að mynda í skapandi greinum og tæknifyrirtækjum. Við þurfum að íhuga aukinn stuðning við nýsköpun og kvikmyndageirann til að skapa störf þar sem tækifæri kunna að myndast,“ sagði Þorsteinn.